Sardinía í sól og hita
með Huldu og Jóni Gauta

Uppselt!

Ferðin til Sardiníu er staðfest.

Ég hef ráðfært mig við Manuel, ítalskan ferðaskipuleggjanda sem starfar hjá ferðaskrifstofunni Gaveena, sem setti upp meðfylgjandi dagskrá (sjá neðar) að göngu-, ævintýra- og afslöppunarferð til Sardiníu í september.

Ferðatilhögunin í grófum dráttum:

Ferðin í heild er 8 dagar / 7 nætur frá 13. – 20. september 2015

Gert er ráð fyrir að vera í Olbia á norðurhluta eyjarinnar hinn 13. september (dagur 1) en formlegri ferð líkur hinn 20. september.

Verð:

153.900 kr. (miðast við Evru gengi 148.5)
Lágmarksfjölda hefur verið náð =>Ferðin er staðfest

Hverjir komast?: Ferðin er staðfest – Fjögur sæti eru laus.

Nú þurfum við sem allra fyrst að vita hverjir vilja koma með í haust og biðjum ykkur að senda póst á jongauti@gmail.com fyrir lok föstudagsins 12. júní.

Bókun/staðfesting og fullnaðargreiðsla ferðar:

Staðfestingargjald er 40.000 kr. (26% af heildinni) en restina 113.900 þarf að greiða í síðasta lagi 14. ágúst, fjórum vikum fyrir brottför.
Nánari upplýsingar um skilmála bókunar má sjá hér á vefsíðu Gaveena.


Dag fyrir dag:

Dagur 1 – Sótt á flugvöllinn í Olbia

Við erum sótt á flugvöllin og ekið til Dorgali þar sem við etum og gistum á gistiheimilinu (Agriturismo Canales)

Dagur 2 – Gengið um stórkostlegt Goroppu gljúfrið eitt það dýpsta í Evrópu (hvar ég sleit aðra hásinina um árið … hin er eftir ;-).
Innifalið: Leiðsögn á ensku, nesti (sem við berum sjálf). Akstur að sama hóteli Agriturismo Canales þar sem við gistum aðra nótt.

Dagur 3-4 – Tveggja daga ganga um fjallasvæðið Scala Pradu – Lanaitho dalinn og að rústum járnaldar þorpsins Tiscali sem uppgötvuðust fyrir réttum 100 árum síðan. Seinni dagurinn er 6-7 tíma ganga en fyrri dagurinn eitthvað styttri.
Innifalið: nesti og kvöldverður með fjárhirðum svæðisins. Gist í tjaldi (í athugun hvort hægt er að leigja svefnpoka fyrir þessa einu nótt). Sá farangur sem við þurfum ekki í ferðina verður geymdur á hótelinu og sóttur á leið til Cala Gonone þar sem við gistum fjórar síðustu næturnar á Hotel San Francisco rétt við ströndina.

Dagur 5 – Rútuferð (1:30 klst.) upp í um 500 metra hæð hvaðan við göngum niður að stórkostlegri strönd Cala Goloritzé (engin bílvegur þangað). Tökum því rólega á ströndinni með nestið okkar þar til bátur kemur að ná í okkur seinni partinn og skutlar … nánast heim á hótel. Sjáum sjálf um nesti og drykki sem við kaupum áður en lagt er af stað.

Dagur 6-7 – Frjálsir dagar! – Hér er er margt í boði og ef Trip advizor er spurt kemur skemmtilegur listi í ljós. Hér eru nokkrar tillögur;

 • Kayakferð meðfram ströndinni – Prima Sardegna leigir báta og er hátt skrifað á Trip Advisor. Hægt að taka land í litlum víkum og eiga einkaströnd í dagpart 😉
 • Hellaskoðun – Einn af mörgum kalksteinshellum við ströndina er Bue Marino en þangað er stutt sigling.
 • Hjólaferðir um fjöllin … ef menn vilja taka almennilega á því (veit þó af mörgum mörlandanum sem þótti hitinn fullmikill til slíkra æfinga 😉
 • Klettaklifur – t.d. á Cala Fuili ströndinni (hæst skrifuð af stöðum við Cala Gonone á Trip Advisor) sem er í göngufjarlægð frá miðbæ Cala Gonone. Hentar öllum sem vilja takast á við bergið.
 • Göngutúr um bæinn; kaffihús, ísbarir o.fl …
 • Sjávardýrasafnið – nútímalegt og ansi flott.
 • Leigja bát fyrir slikk og gera strandhögg á eyðiströnd.

Dagur 8 – Eftir morgunmat er okkur skutlað á flugvöllinn í Olbia (1:30 klst.)

Gistingin:

 • Agriturismo Canales: Öll herbergi með sér snyrtingu og loftkælingu/hitun
 • Hotel San Francisco: Vandaðara og virðist skammlaust hótel. Mjög vel staðsett í bænum. Erum í bed and breakfast á Hótel San Francisco þar sem ég reikna með að við viljum nýta okkur veitingastaðina þarna allt í kring.

Erfiðleikastig:

Reikna verður með 5-7 tíma göngudögum fyrstu þrjá dagana Skv. heimamanni er fyrsti dagurinn, þegar við göngum inn í Goroppu gljúfrið erfiðastur. Af eigin reynslu veit ég þó að Útiverur munu ekki eiga í neinum vandræðum með það.

Innifalið:

 • Far til og frá flugvellinum í Olbia
 • 2 nætur á gistiheimili/hóteli í Dorgali (Agriturismo Canales) eða sambærilegu með sér snyrtingu og morgunverði.
 • Allur akstur til og frá göngustöðum.
 • Leiðsögn á ensku.
 • Full Board fyrstu þrjá dagana þ.e. morgunverður, nesti til dagsins og kvöldverður.
 • Þrjár nætur (bed and breakfast) á Hotel San Francisco í Cala Gonone.
 • Dagsferð á báti um Orosei flóann, nesti til dagsins og stopp á einni af sandströndum flóans.
 • Europe Assistance Travel insurance

Ekki innifalið:

 • Flug til Sardiníu
 • Það sem manni dettur í hug að gera frídagana tvo í Cala Gonone.
 • Hádegis (nesti) og kvöldverðir í Cala Gonone (3 dagar)
 • Drykkir (aðrir en vatn) með mat
 • Þjórfé

Varðandi flug til Sardiníu:

Þegar leitað er á Dohop í dag 7. júní er ódýrasta flugið á 69.409 kr. og flogið í gegnum London Gatwick. Á útleiðinni þarf að gista á flugvellinum fram á næsta dag. Auðvitað eru margir aðrir kostir í stöðunni og hægt að nýta ferðina t.d. til nálægra borga eins og Milan.  Ekki er heldur ólíklegt að verð geti lækkað í aðdragandanum en þá þarf væntanlega að sýna forsjálni og sitja fyrir um slík tilboð.

Nokkrir hafa lýst áhuga á að koma fyrr eða framlengja ferðina. T.d. gæti verið sniðugt að koma sér nokkrum dögum fyrr til höfuðborgarinnar Cagliary sem er syðst á Sardiníu eða að byrja á Korsiku og sigla svo yfir sundið frá Bonafacio til norðaustur Sardiníu.

Myndir teknar í okt. 2013 á sömu slóðum

Screen Shot 2015-06-07 at 21