Viltu koma með í dægilega göngu í sól og hita á ítölsku miðjarðarhafseyjunni Sardiníu?
Hvernig hljómar göngu- og gleðiferð til Sardiníu 25. september til 2. október 2016?
Við, Jón Gauti og Hulda, ætlum að endurtaka leikinn og bregða okkur til sælueyjunnar í Suðurhöfum, Sardiníu, eftir tvær frábærar ferðir þangað. Við erum með ítalskan ferðaskipuleggjanda sem skipuleggur meðfylgjandi ferð um Sardiníu. Ferðin er blanda göngu og upplifunar.
Pakkinn kostar að hámarki 170þ/mann fyrir utan flug. Endanlegt verð veltur á þátttöku en líklegt verð er 165.000 ef við náum 16 manna hópi sem við teljum mjög líklegt.
Eins og staðan er í dag er ódýrasta flugið á 65þ.
Ferðatilhögunin í grófum dráttum:
Ferðin í heild er 8 dagar / 7 nætur frá 25. september – 2. október 2016
Hverjir komast?: Fyrstur kemur fyrstur fær. Nú þurfum við sem allra fyrst að vita hverjir vilja koma með í haust og biðjum ykkur að skrá ykkur hér.
Vinsamlega látið vita af áhuga ykkar hér!
Nokkrar myndir úr ferðinni 2015
Dag fyrir dag:
Dagur 1 – Sótt á flugvöllinn í Olbia
Við erum sótt á flugvöllin og ekið til Dorgali þar sem við etum og gistum á gistiheimilinu (Agriturismo Canales)
Dagur 2 – Gengið um stórkostlegt Goroppu gljúfrið eitt það dýpsta í Evrópu.
Innifalið: Leiðsögn á ensku, nesti (sem við berum sjálf). Akstur að sama hóteli Agriturismo Canales þar sem við gistum aðra nótt.
Dagur 3-4 – Tveggja daga ganga um fjallasvæðið Scala Pradu – Lanaitho dalinn og að rústum járnaldar þorpsins Tiscali sem uppgötvuðust fyrir réttum 100 árum síðan. Seinni dagurinn er 6-7 tíma ganga en fyrri dagurinn eitthvað styttri.
Innifalið: nesti og kvöldverður með fjárhirðum svæðisins. Gist í tjaldi. Sá farangur sem við þurfum ekki í ferðina verður geymdur á hótelinu gist á Agriturismo Canales.
Dagur 5 – Göngudagur að ströndunum Cala Luna og Cala Sisine hvar við verðum sótt á báti sem flytur okkur til Cala Gonone. Við gistum á hótel San Francisco í þeim ágæta bæ Cala Gonone og verður þar næstu nætur. Farangur verður fluttur fyrir okkur á milli staða.
Dagur 6-7 – Frjálsir dagar! – Hér er er margt í boði og ef Trip advizor er spurt kemur skemmtilegur listi í ljós. Hér eru nokkrar tillögur;
- Kayakferð meðfram ströndinni – Prima Sardegna leigir báta og er hátt skrifað á Trip Advisor. Hægt að taka land í litlum víkum og eiga einkaströnd í dagpart 😉
- Hellaskoðun – Einn af mörgum kalksteinshellum við ströndina er Bue Marino en þangað er stutt sigling.
- Hjólaferðir um fjöllin … ef menn vilja taka almennilega á því (veit þó af mörgum mörlandanum sem þótti hitinn fullmikill til slíkra æfinga 😉
- Klettaklifur – t.d. á Cala Fuili ströndinni (hæst skrifuð af stöðum við Cala Gonone á Trip Advisor) sem er í göngufjarlægð frá miðbæ Cala Gonone. Hentar öllum sem vilja takast á við bergið.
- Göngutúr um bæinn; kaffihús, ísbarir o.fl …
- Sjávardýrasafnið – nútímalegt og ansi flott.
- Leigja bát fyrir slikk og gera strandhögg á eyðiströnd.
Dagur 8 – Eftir morgunmat er okkur skutlað á flugvöllinn í Olbia (1:30 klst.)
Gistingin:
- Agriturismo Canales: Öll herbergi með sér snyrtingu og loftkælingu/hitun
- Hotel San Francisco: Vandaðara og virðist skammlaust hótel. Mjög vel staðsett í bænum. Erum í bed and breakfast á Hótel San Francisco þar sem ég reikna með að við viljum nýta okkur veitingastaðina þarna allt í kring.
Erfiðleikastig:
Reikna verður með 5-7 tíma göngudögum. Skv. heimamanni er fyrsti dagurinn, þegar við göngum inn í Goroppu gljúfrið erfiðastur.
Innifalið:
- Far til og frá flugvellinum í Olbia
- 3 nætur á gistiheimili/hóteli í Dorgali (Agriturismo Canales) með sér snyrtingu og morgunverði.
- Allur akstur til og frá göngustöðum.
- Leiðsögn á ensku.
- Bátsferð frá Cala Luna og Cala Sisine til Cala Gonone.
- Full Board fyrstu þrjá dagana þ.e. morgunverður, nesti til dagsins og kvöldverður.
- 3 nætur (bed and breakfast) á Hotel San Francisco í Cala Gonone.
- Europe Assistance Travel insurance
Ekki innifalið:
- Flug til Sardiníu
- Það sem manni dettur í hug að gera frídagana í Cala Gonone.
- Hádegis (nesti) og kvöldverðir í Cala Gonone
- Drykkir (aðrir en vatn) með mat
- Þjórfé