Skíðafantar Fjallaskólans

 

“Ef það er eitthvað leiðinlegra en að ganga upp … þá er það að ganga niður”

Einar Steingrímsson


Fjallaskíði auðvelda uppgönguna og ánægjuna af niðurleiðinni.
Þess vegna setja Skíðafantar Fjallaskólans skíði undir fætur sér í öllum sínum ferðum!

Notkun fjallaskíða snýst þó ekki einvörðungu um að komast upp til að skíða niður því fjallaskíðin bjóða upp á ferðalag, að komast lengra inn í óbyggðirnar, jafnvel á fáfarna tinda.

Á dagskrá Skíðafanta veturinn 2017 verður öllu blandað saman enda verkefnin ólík og hæfilega ögrandi fyrir þokkalega vant skíðafólk. 

Umsjón Skíðafanta:

  • Jón Gauti Jónsson – Fjalla-, jökla- og skíðaleiðsögumaður AIMG
  • Helgi Geirharðsson – Skíðafantur með meiru og heimamaður á Tröllaskaga þar sem hann rekur sitt annað heimili (sjá meira)

Verð og skráning:

29.900 kr. – Áskrift að Skíðaföntum Fjallaskólans til júní 2017

Að auki er greitt fyrir sérhverja ferð (sjá dagskrá neðar)
Verð ferða er breytilegt frá 0 kr. – 65.000 kr. og fer eftir lengd ferðar og hvað er innifalið auk leiðsagnar og kennslu, þ.e. t.d. gisting, matur og/eða langferðabifreið!  

  • Greiðsla: 

Ef þú smellir á verðið hér fyrir ofan flyst þú á örugga greiðslusíðu Korta
Einnig er hægt að að leggja inn á reikning Lágfóta / Fjallaskólinn kt. 461014-1000 (r.nr. 0133-26-10253) 


Dagskrá Skíðafanta 2017

Athugið að mögulega verður einhverjum ferðum bætt við þegar líður á tímabilið ef áhugi er fyrir hendi. 

8. febrúar (mið) – Kynningarfundur – opið öllum!

Stutt kynning á dagskrá Skíðafanta, ferðunum, verðinu og veðrinu!
Hér er tækifærið til að spyrja og fá svör og e.t.v. að skrá sig til leiks.

18. febrúar (lau) – Grunnur þess sem koma skal – Brekkur og snjór

Grunnur að því sem koma skal og því eiginlega skyldumæting.
Rennum hratt yfir ýmis ferðatæknileg/grunnatriði fjallaskíðamennsku sem nýtast munu í ferðum vetursins en megináhersla á öruggt leiðarval til að forðast snjóflóð. Einnig rýnum við snjóalög og skoðum styrk snjóþekjunnar. Í lok dags förum við yfir rétt viðbrögð við snjóflóðum og æfum leit í snjóflóði svo allir séu á sömu blaðsíðu.
Einn fyrir alla allir fyrir einn!  Ef aðstæður á SV-horninu eru afleitar verður hugsanlega brunað eitthvað lengra … jafnvel á langferðabifreið … það verður eitthvað. Kostnaður við akstur bætist þá við.
Verð: 0 kr. – 19,900 kr. fyrir utanaðkomandi – Skráðu þig í Skíðafanta hér

27. febrúar (mán) – Útbúnaðar og skíðaprepp í Útilíf 

Skráðir skíðafantar hittast með búnaðinn sinn og fá góð ráð hjá leiðsögumönnum Fjallaskólans og sérfræðingum Útilífs (30% afsláttur fyrir meðlimi)
Verð: 0 kr. – aðeins fyrir skráða Skíðafanta – Skráðu þig í Skíðafanta hér

4. mars (lau) – Botnssúlur – Vestursúla og Norðursúla úr Brynjudal.

Gangan hefst við Skógræktina í Brynjudal en stefnan er sett á eina flottustu skíðabrekku SV-lands, beint vestur af Vestursúlu.
Verð: 11,900 kr. – 14,900 kr. fyrir utanaðkomandi

19. mars (sun) – Beeesta brekkan SV-lands.

Óvissan er vanmetin og skildi lofa hvenær sem við fáum tækifæri.
Hér verður áherslan á stuttan akstur og eins langt rennerí og mögulegt er.
Verð: 6,900 kr. – 10,900 kr. fyrir utanaðkomandi

25. mars (lau) – Snæfellsnes frá S-N eða öfugt … þar sem brekkur eru bestar.

Brekkurnar á Snæfellsnesi, sér í lagi á norðanverðu nesinu, henta einstaklega vel fyrir fjallaskíðatúra. Markmiðið er að skíða bestu brekkurnar og ef aðstæður bjóða upp á að fara upp öðru megin en niður hinum megin þ.e. frá A til B. Svo er að redda sér til baka 😉
Verð: 12,900 kr. – 15,900 kr. fyrir utanaðkomandi.

9. apríl (sun) – Norðanverður Eyjafjallajökull (e.t.v. dráttur á toppinn!)

Eyjafjallajökull til suðurs er klassísk skíðaleið.
Skíðaleiðir norður af jöklinum eru fáfarnari og ævintýralegri og verkefni þessa dags.
Verð: 12,900 kr. – 15,900 kr. fyrir utanaðkomandi.

20.-23. apríl – Tröllaskagi í allri sinni dýrð – Fjallaskíðaparadís norðursins.

Fjórir dagar / þrjár nætur á Dalvík í fullu fæði.
Tveir heilir og tveir hálfir skíðadagar á Tröllaskaga. Grunnbúðastemmning með fullu fæði, uppábúnu og heitum potti í Jónínubúð á Dalvík hvaðan er stutt í brekkurnar. 
Verð með fullu fæði og húsnæði í þrjár nætur / fjóra daga aðeins 60,000 kr. – 79,900 kr. fyrir utanaðkomandi.

12.-14. maí – Handan Öræfajökuls – frá A-B! Tindur Þuríðar og Hrútsfjalls!

Fallegir tindar og metnaðarfull leið um fáfarið svæði. Aðeins ráðlögð fyrir þá sem hafa þvælst með Skíðaföntum í fyrri ferðum. Dagleiðin er um 30 km löng og heildarhækkun um 2.000 metrar. Þetta er fullvaxin ferð sem kallar á góðan undirbúning og samningaviðræður við veðurgerðina.
Verð: 32,900 kr. – 48,900 kr. fyrir utanaðkomandi. Við þetta bætist gisting í tvær nætur í Öræfum.

2.-5. maí – Þyrluskíðun eða stutt heimsókn norður á Tröllaskaga

Ef aðstæður til fjalla verða góðar er upplagt að enda tímabilið á helgarferð norður eða þyrluskíðun þar sem áherslan er á að skíða eins mikið og mögulegt er.
Verð: Tilkynnt síðar … fer eftir þátttöku.

Athugið að það gildir um allar ferðir á dagskrá Skíðafanta að auglýstur áfangastaður getur breyst eftir veðri og aðstæðum. 


IMG_20170325_170119_334

Picture 115 of 126


Útbúnaðarlisti Skíðafanta


Sitthvað fleira … spurningar og svör?

Hvað er líkt og ólíkt með svigskíðum og fjallaskíðum?

Á fjallaskíðum opnast möguleiki á að fara út fyrir troðnar brautir skíðasvæðanna. Fjallaskíði eru af ýmsum gerðum, allt frá því að vera svolítið breiðari upp í að vera miklu breiðari en svigskíði. Fjallaskíði eru auk þess búin sérstökum bindingum, þar sem hægt er að losa hælinn og ganga upp í móti. Þá er sérstakt skinn límt undir skíðin til að einfalda göngu upp í móti en þegar upp er komið er skinnið tekið undan og brunað niður … eða þannig!

Vant svigskíðafólk sem öðlast hefur gott jafnvægi og góða tækni á venjulega ekki í vandræðum með að skíða utanbrautar á fjallaskíðum. Það sem þó þarf að hafa í huga er að jafnvægið breytist nokkuð af þeirri einföldu ástæðu að á bakið er komin bakpoki sem getur verið frá 6-10 kg. að þyngd.

Þótt margt skíðafólk dreymi dúnmjúkar púðurbrekkur er auðvelt að njóta uppgöngunnar á fjallaskíðum. Þar spilar náttúran og útivistin stórt hlutverk þar sem marrið í snjónum, lófastórir glitrandi ískristallar og lognkyrrar morgunstundir. Sérhver ferð verður ógleymanleg.

Fjallaskíðamennska er full af náttúrulegum og persónulegum áskorunum. Engin verður ósnortin af því að ná hæsta tindi í vetrarham þar sem snjóþungar fjallshlíðar, harðfenni, skafrenningur og óblíða veðrátta dýpka upplifunina. Það þarf ekkert að fara í launkofa með þá staðreynd að hér á landi er allra veðra von og mikilvægt að haga ferðaáætlun eftir veðri og aðstæðum til fjalla. Stundum þarf einfaldlega að sveigja áætlunina og gera það besta í stöðunni með brosi á vör.

Fönn og fróðleikur!

Maður er manns gaman og þess vegna ferðast Skíðafantar saman sem hópur, nema sérstakar ástæður kalli á annað. Í ferðum er, auk leiðsagnar um íslensk fjöll, lögð áhersla á að miðla þekkingu um ferðatæknileg atriði, örugga ferðahegðun, leiðarval, mat á snjóflóðahættu, björgun úr snjóflóði, veðurfar til fjalla og rétta notkun hins sérhæfða útbúnaðar sem fylgir sportinu.

Lágmarks- og hámarksþátttaka:

Ef fjöldi skráðra skíðafanta nær ekki lágmarki í ferðum hópsins áskilur Fjallaskólinn sér rétt til að fella niður auglýsta ferð. Verður þá reynt að finna nýja dagsetningu svo fljótt sem verða má.
Lágmarksfjöldi í ferðum Skíðafanta er frá 6 til 8. Ef þátttaka í ferðum nær 10 eða fleiri skapast grundvöllur til að leigja hópbifreið sem gerir ferðalagið afslappaðara.

Aprés ski:

Já! hvenær sem tækifæri gefst, enda mikilvægur þáttur fjallaskíðakúltúrsins að slökkva þorstann og fara yfir uppákomur og helstu sigra í dagslok!

Samskipti:

Fyrir sérhvern viðburð á dagskrá Skíðafanta verða sendar upplýsingar með tölvupósti og á fésbókarsíðu hópsins. Þar er jafnframt upplagt að skiptast á upplýsingum og deila myndum .
#skidafantar @fjallaskolinn

Fagmennska, öryggi og ábyrgð:

Öryggi útivistarfólks er okkur ofarlega í huga og ávallt efst á blaði þegar ákvarðanir eru teknar í ferðum og á námskeiðum Fjallaskólans. Eina meginhlutverk fararstjórar / leiðsögumanna / leiðbeinenda Fjallaskólans er að koma þátttakendum heilum heim. Þetta kann í undantekningartilvikum að þýða að snúið verði við fyrr en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir en þátttakendur mega treysta því að það er gert á grundvelli þeirra eigin öryggis.
Yfirumsjón allra ferða Skíðafanta er í höndum fjallaleiðsögumanns með Skíðaleiðsögn-2 réttindi viðurkennd af Félagi fjallaleiðsögumanna á Íslandi (www.aimg.is).
Aðrir leiðsögumenn og gestaleiðbeinendur eru vant skíðafólk með ólíkan bakgrunn / réttindi í fjallaskíða- og ferðamennsku.

Sameinumst í bíla:

Á námskeiðum og í ferðum Fjallaskólans er reynt eftir megni að sameinast um far svo draga megi úr óæskilegum áhrifum ferðalagsins.
Reglan er þá sú að farþegar deila bensínkostnaði sem reiknaður er miðað við 12 lítra/100 km eyðslu.  

Hvernig tek ég þátt?

Þú staðfestir þátttöku í Skíðaföntum með því að greiða 29.900 kr.
Grunnaðild innifelur margskonar fríðindi.

Síðan er greitt sérstaklega fyrir sérhverja ferð frá 6.900 kr. – .

Fyrir hverja?

Dagskrá Skíðafanta er ekki hugsuð fyrir algera byrjendur á skíðum.
Reyndar eru ferðirnar miserfiðar og því gæti hentað byrjendum að taka þátt í sumum en ekki öðrum (sjá dagskrá). Dagskráin í heild ætti að henta vönum skíðamönnum þótt þeir séu að stíga sín fyrstu skref á fjallaskíðum að því gefnu að viðkomandi sé vanur og í góðu formi.

Hvað ef veðrið er … ?

Hlutverk umsjónarmans Skíðafanta er að lúslesa í veðurspá og aðstæður til fjalla. Túlkun veðurupplýsinga m.t.t. aðstæðna á vettvangi er talsverð kúnst sem auk þess byggir á áralangri reynslu. Ef veðurspá fyrir ferðadag er svo slæm að sýnt þyki að erfitt verði að halda í ferðagleðina eða jafnvel hættulegt að halda til fjalla er líklegt að ferð verði frestað um einn dag eða henni aflýst alveg og lagt á ráðin með nýja ferð síðar. Í slíkum tilvikum verður ferðin endurgreidd að fullu.

Fyrirvari á ferðum:

Auglýstar ferðir miðast við bestu aðstæður. Þess vegna áskilur Fjallaskólinn sér rétt til að breyta dagskrá ferða með stuttum fyrirvara ef veðurspá eða aðstæður aðrar teljast óviðunandi. Breytingar á auglýstri ferðaáætlun er kynnt þátttakendum svo fljótt sem verða má og fá þeir endurgreitt að fullu ef ekki er lagt af stað. Miðað er við að nýtt ferðaplan, ef til þess kemur, beri ekki auka kostnað í för með sér.

Hvað ef ég hætti við rétt fyrir ferð?  

Yfirleitt er lokaskráning tveimur sólarhringum fyrir brottför. Fjallaskólinn (Lágfóta ehf.) áskilur sér rétt til að halda eftir allt að 50% af greiðslu ferðar ef innan við sólarhringur er þar til ferð hefst.

Hvað þarft þú til að geta tekið þátt?:

Brennandi áhuga á skíðamennsku og útivist, grunnbúnað (sjá búnaðarlista) og einhverja skíðareynslu.

Skíðageta viðmið:

Þátttakendur þurfa að vera þokkalega vanir á skíðum. Ágætt viðmið er að vera öruggur í bröttum brekkum og að geta skíðað niður í hörðu og mjúku færi. Rétt er að taka fram að markmið leiðsögumanns í sérhverri ferð er ávallt að þefa uppi gott skíðafæri öllum til ánægju.

Líkamlegt atgervi:

Það er ávallt betra að vera í góðu formi á fjöllum því þannig nýtur maður skíðamennskunnar best. Þetta má samt ekki skilja sem svo að keppst verði við að vera fyrstur upp á brún því mikil áhersla er lögð á að ferðast saman sem einn hópur og í raun fer hópurinn ekki hraðar en sá síðasti á þokkalega gott með. Það er hlutverk leiðsögumanns að stilla hraða hópsins. Í undantekningatilvikum getur hentað að skipta hópnum upp en það verður aðeins gert í fullu samráði við leiðsögumann ferðar hverju sinni.

Hikaðu ekki við að hafa samband ef spurningar vakna:

Best er að senda t.póst eða hringja í Jón Gauta umsjónarmann Skíðafanta
jongauti@fjallaskolinn.is / 7877090