Almenn Fjallamennska – námskeið

Sex daga námskeið þar sem nemendur fá kennslu í öllum grunnatriðum fjallamennsku á Íslandi. Meginmarkmiðið er að nemendur verði hæfir til að ferðast um brattlendi fjalla og jökulhvel landsins á eigin vegum og á öruggan hátt.  

Námskeiðið verður haldið á og í næsta nágrenni Öræfajökuls í Öræfasveit og gist á Svínafelli (sjá neðar).

Markmið námskeiðsins eins og raunar allra ferða til fjalla, er að koma aftur heim heil á höldnu. Þess vegna er öryggi grunnþema námskeiðsins. Áhersla er á örugga ferðamennsku með áherslu á góðan undirbúning. Enn fremur verður farið í grunnatriði línuvinnu, tryggingar í bergi, snjó og ís, veðurfræði, notkun snjóflóðaýla o.fl. Í grófum dráttum verður farið í allt sem dregið getur úr líkum á óhöppum til fjalla á Íslandi en einnig verður góðum tíma varið í t.d. sprungubjörgun, björgun úr snjóflóðum og annað sem miðar að því að koma sér út úr vandræðum.

Ath. að námskeiðið getur verið grunnur að umsókn um inngöngu að AIMG Fjallaleiðsögn 1 sem veitir réttindi sem Aðstoðar fjallgönguleiðsögumaður (sjá nánar hér á vefsíðu Félags Fjallaleiðsögumanna á Íslandi – AIMG)


Eftir námskeiðið eiga nemendur að:

 • geta gert raunhæfar ferðaáætlanir m.t.t. veðurs og aðstæðna
 • kunna ísaxarbremsu vel og búa yfir góðri broddatækni
 • fá góða reynslu í notkun línu í brattlendi
 • geta sett upp öruggar trygginar í snjó, ís og klettum
 • þekkja útbúnað sem notaður er í fjallamennsku
 • geta tryggt öryggi sitt á brúnum kletta, jökulsprungna
 • geta sigið fram af brúnum ís/kletta með öryggisprússik
 • geta “klifrað” upp úr jökulsprungum með aðstoð prússikbanda
 • geta fundið grafinn félaga í snjóflóði, hratt og örugglega
 • þekkja betur viðbrögð sín við “erfiðar” aðstæður
 • kunna að grafa sig í fönn
 • o.fl. o.fl.

Dagsetning: 20. – 25. maí ‘2018 

Hlutfall leiðbeinenda / nemenda:  1:6  Lágmarksfjöldi þrír.

Skráning: Athugið að greiðsla námskeiðsins staðfestir skráningu.

Verð: 199.000 kr. Greiðsla með korti eða millifærslu á reikning (Lágfóta ehf. kt. 461014-1000 R.nr. 0133-26-10253)


Innifalið:

 • Gisting þar sem til staðar er sameiginleg eldunar- og snyrtiaðstaða
 • Akstur R.vík-Skaftafell-R.vík og á námskeiðinu
 • Sameiginlegur jöklabúnaður og ýmis sérhæfður klifur og öryggisbúnaður
 • Einn leiðbeinandi á hverja sex nemendur
 • Jöklatjöld og eldunarbúnaður fyrir nótt uppi á jökli

Ekki innifalið:

 • Matur – Hægt að hafa sameiginleg innkaup og skiptast á að elda eða borða á Freysnesi sem er vegasjoppa með heimilsmat eða Hótel Skaftafelli Freysnesi. Skoðað þegar nær dregur!
 • Nesti fyrir daginn og þegar gist er á jöklinum
 • Persónulegur útbúnaður (sjá neðar) sumt má leigja

Gistingin:

Gist er á Svínafelli í öræfum þar sem boðið er upp á svefnpokagistingu með sameiginlegu klósetti og sturtu.
Á staðnum er fullbúið eldhús með borðkrók og stofu þar sem hægt er að setjast yfir bóklega þætti í rólegheitum.


Persónulegur útbúnaður:

Margskonar persónulegur útbúnaður er nauðsynlegur fyrir námskeið sem þetta.
Ýtarlegur útbúnaðarlisti verður sendur á skráða nemendur en stærstu búnaðarliðirnir eru m.a.:

Athugið! Hafið samband við undirritaðan ef aðstoðar við val / kaup á útbúnaði er óskað.

 • Viðeigandi útivistarfatnaður til vetrarferða
 • Áttaviti, GPS-tæki, hæðarmælir, kort
 • Bakpoki til dagsferða (35-45 L)
 • Bakpoki ferðapoki (65-75 L)
 • Fjallaskór (uppháir skór með alstífum botni fyrir klifurbrodda)
 • Svefnpoki til vetrarferða 
 • Snjóflóðaýlir (stafrænn, þriggja loftneta)
 • Snjóflóðastöng (a.m.k. 240 cm)
 • Skófla
 • Fjallamennsku ísöxi (hægt að leigja)
 • Klifuraxir (hægt að leigja)
 • Broddar (hægt að leigja)
 • Klifur-/Jökla belti með áhaldalykkjum (hægt að leigja)
 • Prússikbönd og slingar
 • Hjálmur (hægt að leigja)

Endilega hafðu samband ef þú hefur spurningar um eigin útbúnað eða útbúnað sem til stendur að kaupa eða fá lánaðann. Eins og fram kemur getur Fjallaskólinn lánað / leigt sumt á listanum.


Dagskrá dag fyrir dag:

Almennt byrjum við hvern dag á stuttum morgunfundi en stefnum að því að leggja af stað frá Svínafelli kl. 9 en að vera komnir heim fyrir kl. 18 á kvöldin. Kvöldmatur kl. 19 og í kjölfarið stutt spjall um daginn og morgundaginn. Athugið að veður getur þýtt að dagar hliðrast.

Dagur 1 – Svínafell:  Snjór, kynning og undirbúningur
08.00 – Brottför frá R.vík (staðsetning ákv. í samráði við nemendur)
12.30 – Áætluð koma í Skaftafell / Svínafell. Komum okkur fyrir. 
Efni dagsins: Kynning á námskeiði og nemendum, fróðleikur um veður, snjóalög og búnað.

Dagur 2 – Hnappavellir – Klettar:

Dagur 3 – Skriðjökull – Harðís: Broddatækni, tryggingar í ís og ísklifur

Dagur 4 / 5 – Öræfajökull – Jöklaferðir: Ferðamennska, sprungubjörgun, vetrarnáttból, neyðarskýli

Dagur 6 – Skriðjökull: Harðís og heimferð

Áætluð brottför um kl. 17 og því komum við seint til R.víkur. Borðum einhvers staðar á leiðinni heim.


Að námskeiði loknu:

Að loknu námskeiðinu Almenn Fjallamennska eiga þátttakendur að geta tryggt öryggi sitt í brattlendi og á jöklum og haldið til fjalla á eigin vegum til að afla sér frekari reynslu án þess að stefna öryggi sínu í hættu.

Nánari upplýsingar gefur Jón Gauti í síma 7877090